154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er alveg hárrétt, tölurnar segja þetta nákvæmlega: Á kjörtímabilinu 2013–2016 tók ríkið inn meiri tekjur miðað við landsframleiðslu en ríkisstjórnin gerir núna. Þar liggur í rauninni munurinn á hallanum þegar allt kemur til alls. Ef ríkið tæki inn meiri tekjur þá væri ríkið ekki í mínus því að útgjöldin eru mjög svipuð, rétt rúmlega 30% af vergri landsframleiðslu, bæði á kjörtímabilinu 2013–2016 og á þessu kjörtímabili, fyrir utan náttúrlega Covid-ruglið sem við höfum farið í gegnum. Það eiga t.d. að vera 30,8% útgjöld á þessu ári og þau voru árið 2014 30,8%, alveg nákvæmlega eins. Þannig að við erum með sömu útgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í dag og 2014 en við erum með mun minni tekjur. Merkilegt.